Ávarp forstjóra

Hagnaður TM á árinu 2015 var 2,8 milljarðar króna. Hagnaður af fjárfestingarstarfsemi nam 4,1 milljarði króna en afkoma af vátryggingarekstri var neikvæð eins og jafnan þegar mikil hagvaxtaraukning verður í þjóðfélaginu. Skipulagi félagsins var breytt á árinu til að bæta ákvarðanir um verðlagningu og skerpa á þjónustu. Rætt er við Sigurð Viðarsson forstjóra. 


Sigurður Viðarsson forstjóri TM

„Árið var erfitt þegar horft er til vátryggingarekstursins. Við þekkjum það vel úr sögu félagsins og það er almennt þekkt í tryggingaheiminum að tjónum fjölgar við aðstæður eins og ríkt hafa á Íslandi síðustu misseri. Hagvexti og uppgangi fylgir aukinn hraði og þar með aukin hætta á mistökum. Þetta á við um flest svið samfélagsins og birtist okkur hvað gleggst í auknum bílatjónum en einnig í öðrum ábyrgðatryggingum. Fjölgun ferðamanna segir til sín en þeir eru flestir ókunnugir íslenskum aðstæðum, hvort heldur er á þjóðvegunum eða hálendinu, með þekktum afleiðingum. Þá lentum við í nokkrum stórum tjónum í sjótryggingum á árinu. Við þetta bætist svo að á síðasta ári gengu lægðir svo tugum skipti yfir landið og ollu margvíslegu tjóni. Samantekið hækkaði tjónakostnaður um nítján prósent árið 2015.“

Hvernig gekk fjárfestingarstarfsemin?

„Hún gekk mjög vel. Það er enda svo að í uppgangi eru hagfelldar aðstæður á hlutabréfamarkaðnum og þannig vega þessir tveir starfsþættir félagsins hvor annan upp. Í niðursveiflu dregst hagnaður af fjárfestingum saman en tjónunum fækkar um leið og þá verður jafnan hagnaður af vátryggingastarfseminni. Raunávöxtun fjárfestinga árið 2015 var rúmlega þrettán prósent sem er töluvert betri árangur en árið á undan sem þó var mjög gott.“

Hækka iðgjöld þegar svona árar?

„Við völdum að gera ekki taxtabreytingar á verðskrám heldur laga afsláttarkjör að aðstæðum. Við höfum í nokkur ár haft það að markmiði að auka fylgni milli þeirra iðgjalda sem viðskiptavinir greiða og þeirra áhættu sem þeirra aðstæður skapa með það að markmiði að okkar bestu viðskiptavinir búi við mjög samkeppnisfær kjör. Sú ákvörðun var tekin eftir ítarlega skoðun og þar kom í fyrsta sinn til kasta nýrrar starfseiningar sem sett var á stofn á árinu og fjallar um og ákveður grunnverðlagningu þjónustunnar. Sérfræðingar félagsins í verðlagsmálum sem áður tilheyrðu mismunandi deildum fylgjast nú með mögulegum og ómögulegum áhrifavöldum og taka ákvarðanir í sameiningu. Með þessu móti er líklegra að betri ákvarðanir séu teknar auk þess sem samræmi í kjörum er tryggt. Það er hins vegar ljóst að verðlagningin mun á næstunni taka betur mið af ríkjandi aðstæðum enda mikilvægt að iðgjöld standi undir tjónum og kostnaði.“

Hverjar eru horfurnar í rekstrinum fyrir 2016?

„Áfram er gert ráð fyrir hagvexti á Íslandi og þar með reiknum við með áframhaldandi fjölgun tjóna. Við reiknum líka með að hagnaður verði af fjárfestingarstarfseminni en getum ekki búist við að hann verði jafn mikill og 2015 enda náðist þá einstaklega góður árangur. Áætlanir félagsins eru gerðar út frá bestu fyrirliggjandi upplýsingum og spám á hverjum tíma. Niðurstaða síðasta árs var í heild betri en upphafleg áætlun hljóðaði upp á en tjónakostnaðurinn varð hærri en við bjuggumst við. Í endurskoðaðri áætlun sem gerð var þegar árið var hálfnað sáum við betur í hvað stefndi og sú áætlun gekk eftir.“

Félagið starfaði eftir nýrri reikningsskilaaðferð, hvernig gekk það?

„Það gekk vel að beita þessari reikningsskilaaðferð sem er löguð að kröfum Solvency II sem er tilskipun Evrópusambandsins um gjaldþol tryggingafélaga. Við höfðum undirbúið félagið vel og gert ýmsar nauðsynlegar breytingar og vorum tilbúin árið 2014 fyrir innleiðingu tilskipunarinnar sem átti að verða um síðustu áramót en frestaðist um nokkra mánuði. Við höfum því orðið þó nokkra reynslu af þessari nýju aðferð og innleiðingin sem slík breytir ekki öðru fyrir okkur en því að opinber upplýsingamiðlun félagsins mun verða enn meiri en nú er, hluthöfum til hagsbóta.“

Lét félagið til sín taka í samfélagslegum málefnum á árinu?

„Já, starfað var markvisst eftir stefnu félagsins um samfélagsábyrgð og á grunni hennar tókum við þátt í margvíslegum verkefnum. Einn liður stefnunnar er stuðningur við vaxtarbrodda samfélagsins og í samræmi við hann fjárfestum við í nokkrum fyrirtækjum sem vinna að athyglisverðum verkefnum. Víðtækur stuðningur TM við íþróttahreyfinguna er svo í samræmi við áherslu okkar á forvarnir. Þá má nefna að við erum aðilar að sérstakri yfirlýsingu um aðgerðir í loftslagsmálum sem gefin var út í tengslum við Loftslagsráðstefnuna í París. Í henni felst að við setjum okkur markmið og fylgjum þeim eftir með aðgerðum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka myndun úrgangs. Slíkt verkefni er kjörið fyrir TM sem vill stuðla að bættum lífsgæðum fólks í sem víðtækustum skilningi.“