Ávarp stjórnarformanns

Árið 2015 var fyrsta heila starfsárið þar sem unnið var eftir skýrt skilgreindum áhættuvilja stjórnar og nýrri stefnu um fjárhag félagsins. Það er stjórninni kappsmál að vera í forystu um að veita hluthöfum greinargóðar upplýsingar um afkomu, fjárhag og stefnu. Enn eru í gildi opinberar álögur sem skerða samkeppnishæfni. TM er fyrirmyndar­fyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Rætt er við Örvar Kærnested formann stjórnar.


Örvar Kærnested
 stjórnarformaður TM

„Nýliðið ár var fyrsta heila starfsárið þar sem unnið var eftir nýrri stefnu um fjárhag félagsins sem byggir á áhættuvilja sem stjórn hefur samþykkt. Áhættuviljinn er eins konar verkfæri stjórnar sem skilgreinir vilja TM til áhættutöku í einstökum þáttum starfseminnar og um leið leiðarvísir til stjórnenda í daglegum rekstri. Fylgst er náið með að áhætta fari ekki út fyrir markmið og brugðist tímanlega við ef slíkt gerist. Í áhættuvilja er auk þess að finna ákvörðun um að svonefnt gjaldþolshlutfall skuli vera 1,5 sem þýðir að félagið stefnir að því að hafa ávallt 50% meira eigið fé en krafist er samkvæmt lögum.

Það má svo segja að arðgreiðslustefna félagsins sé afleiðing af þessu enda liggur fyrir ákvörðun um hversu háa upphæð af peningum hluthafanna við teljum okkar þurfa til að starfrækja félagið með ábyrgum hætti. Því fjármagni sem verður til umfram þá þörf er skilað til hluthafa með blandaðri leið arðgreiðslna og endurkaupa. Það er mat stjórnar að mikilvægt sé að endurkaup séu hluti af arðgreiðslustefnu félagsins svo hægt sé að stýra fjármagnsskipan þess með jöfnum og skilvirkum hætti yfir allt árið.

Tillaga stjórnar fyrir aðalfund félagsins 2016 er að greiddar verði 1.500 milljónir króna í arð og allt að annarri eins fjárhæð verði varið til endurkaupa fram að aðalfundi 2017. Gangi það eftir lætur nærri að 20% af markaðsvirði félagins renni til hluthafa á næstu tólf mánuðum.“

Er hluthöfum ljós stefna stjórnar í þessum efnum?

„Stjórn félagsins leggur mikið upp úr því að hluthafar hafi góðar og ítarlegar upplýsingar um starfsemi félagsins. Stjórnin er í vinnu hjá hluthöfunum og henni ber að gæta þess að þeir hafi allar nauðsynlegar upplýsingar svo þeir geti metið TM sem fjárfestingarkost og tekið ákvarðanir þar að lútandi. TM hefur allt frá skráningu á hlutabréfamarkað verið í fararbroddi á þessu sviði hvort sem um er að ræða birtingu áætlana, niðurbrot á rekstrarþáttum og eignum eða markmið um fjármagnsskipan og þar með arðgreiðslur. TM mun halda áfram á þessari braut og sem umsvifamikill fjárfestir á íslenskum verðbréfamarkaði hvetjum við önnur félög til að hafa þetta að leiðarljósi.“

Hvernig voru ytri starfsskilyrði félagsins á árinu?

„Íslandi virðist ætla að takast að vinna sig nokkuð hratt út úr þeirri erfiðu stöðu sem banka- og gjaldmiðilshrun ársins 2008 skapaði. Svo virðist sem sá slaki sem myndaðist í hagkerfinu í kjölfar þess sé nú að mestu horfinn auk þess sem mikilvægum áföngum hefur verið náð varðandi neikvæða stöðu Íslands við útlönd sem ógnaði efnahagslegu jafnvægi. Nú hlýtur að hylla undir að stjórnvöld aflétti fjármagnshöftum og rýmki þar með fjárfestingarheimildir. Slíkt er orðið mjög aðkallandi enda ekki hægt að stýra stórum eignasöfnum með hagkvæmum hætti ef fjármagnsflutningar eru ekki frjálsir.

Á hinn bóginn verð ég að nefna að enn búa fyrirtæki í okkar atvinnugrein við umtalsverðar aukaálögur sökum þess að lagður er fjársýsluskattur á laun og svokallaður sérstakur fjársýsluskattur á hagnað umfram tiltekið lágmark. Það er bagalegt og ósanngjarnt að samkeppisstaða fjármálafyrirtækja um hæft vinnuafl og fjármagn sé skekkt með þessum hætti. Rökin fyrir setningu laga um þetta voru að fjármálafyrirtæki landsins væru undanþegin virðisaukaskattsskyldu og væru þar með í öfundsverðri stöðu auk þess að hafa hlotið mikla opinbera fjárhagsaðstoð í kjölfar hrunsins. Síðari fullyrðingin á auðvitað alls ekki við í tilviki TM sem ekki hefur þegið neina fjárhagslega aðstoð og allt tal um að öfundsverð staða felist í því að vera undanþeginn virðisaukaskatti er ekki á rökum reist. Væru fjármálafyrirtæki virðisaukaskattsskyld væri þeim vissulega gert að innheimta virðisaukaskatt af viðskiptavinum sínum en á móti þyrftu þau ekki að greiða virðisaukaskatt af aðkeyptum vörum og þjónustu. Við þetta má svo bæta að þau fjármálafyrirtæki sem þáðu fjárhagslega aðstoð frá hinu opinbera hafa nú greitt umtalsvert framlag til ríkisins í formi stöðugleikaframlags. Við köllum því eftir því að þessari sérstöku skattheimtu linni án frekari tafar.“

Urðu einhverjar breytingar á starfsemi stjórnar?

„Starfshættir stjórnar og stjórnenda voru á árinu teknir út og metnir með ítarlegum hætti af óháðum aðila út frá leiðbeiningum um góða stjórnarhætti. Að matinu standa Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins, Kauphöllin og Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands. TM hlaut staðfestingu á því að vera fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum sem er afskaplega jákvætt fyrir félagið og hluthafa þess.“

Hver verða helstu verkefni stjórnar 2016?

„Við höldum áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið og styðjum við bakið á öflugum hópi stjórnenda og starfsfólks. Auk þess að fylgjast með daglegum rekstri og stærri ákvörðunum komum við að ýmsum verkefnum, til dæmis stefnumótun, framtíðarsýn og samfélagslegri ábyrgð. Þá munu störf okkar að einhverju leyti taka mið af því að 2016 er stórafmælisár, TM var stofnað í desember 1956 og verður því sextugt. Því verður vitaskuld fagnað en segja má að lykilhlutverk stjórnar í þeim efnum sé að gæta að því að afmælisbarnið verði hressara og hraustara en nokkru sinni á þeim merku tímamótum.“