Rekstrarniðurstöður 2015

  • Heildarhagnaður tímabilsins var 2.827 m.kr. og hagnaður á hlut var 3,84 kr. (2014: 2.074 m.kr. og 2,75 kr.)
  • Hagnaður fyrir skatta var 3.167 m.kr. (2014: 2.417 m.kr.)
  • Framlegð af vátryggingarstarfsemi var neikvæð um 416 m.kr. (2014: jákvæð um 117 m.kr.)
  • Fjárfestingartekjur voru 4.061 m.kr. (2014: 2.615 m.kr.) og ávöxtun fjárfestingareigna var 15,4% (2014: 10,3%)
  • Samsett hlutfall var 103,3% (2014: 99,0%)
  • Bókfærð iðgjöld jukust um 11,0% á milli ára
  • Eigin iðgjöld jukust um 11,8% á milli ára
  • Eigin tjón hækkuðu um 19,2% á milli ára
  • Rekstrarkostnaður hækkaði um 7,8% á milli ára
  • Arðsemi eigin fjár var 24,2% (2014: 15,3%)


Hagnaður eftir skatta nam 2,8 ma.kr. og skýrist eingöngu af fjárfestingarstarfsemi félagsins en tap var á vátryggingarstarfseminni. Arðsemi eigin fjár var 24,2% en markmið félagsins er að hún sé hærri en 15%. Tillaga er um að greiddar verði 2,1 kr. í arð á hvern hlut, eða 1,5 ma.kr. Einnig verður lagt til að á árinu 2016 verði keypt eigin bréf fyrir allt að 1,5 ma.kr.

Rekstur

Afkoma ársins í vátryggingarekstri var í samræmi við útgefna áætlun félagsins sem gerði ráð fyrir 103% samsettu hlutfalli sem er töluvert yfir langtímamarkmiði um að samsett hlutfall skuli vera lægra en 95%. Meginskýring á þessu er hækkun á tjónshlutfalli sem hækkaði úr 76,6% í 81,7%. Kostnaðarhlutfallið var 21,6% og lækkaði á milli ára en markmið TM er að ná því undir 20%. Rekstrarkostnaður hækkar í heild um 8% á milli ára og munar mestu um aukinn umboðslaunakostnað. Launakostnaður lækkaði lítillega vegna fækkunar starfsmanna. Heildartekjur félagsins námu 16.741 m.kr. árið 2015 sem er 20% hækkun frá árinu 2014.

Iðgjöld jukust um 12% á milli ára en tjónakostnaður hækkaði mun meira eða um rúm 19% og munar þar mestu um slaka afkomu af skipatryggingum. Aukning iðgjalda og tjóna var hins vegar í jafnvægi á fjórða ársfjórðungi ársins þegar bæði iðgjöld og tjón jukust um 13% á milli ára. Eignatryggingar skiluðu góðri afkomu þrátt fyrir slæmt veðurfar í upphafi árs. Mikil sveifla í afkomu sjó- og farmtrygginga stafar bæði af stærri tjónum innanlands og erlendis. Afkoma ökutækjatrygginga batnaði töluvert á milli ára en eru þó áfram reknar með tapi. Þetta batamerki er ánægjulegt þegar haft er í huga að umferðarþungi hefur aukist töluvert á undanförnum misserum. Ábyrgðartryggingar ollu vonbrigðum en afkoma greinarinnar versnar gjarnan á hagvaxtarskeiði. Á móti kemur að ábyrgðartryggingar vega tiltölulega lítið eða um 5% af heildariðgjöldum. Slysatryggingar voru nokkurn vegin í járnum en afkoman versnaði á milli ára. Líftryggingar voru reknar með hagnaði líkt og á undanförnum árum en þær vega hins vegar ekki þungt í heildariðgjöldum eða um 3%.

Kostnaður vegna endurtrygginga hefur farið stöðugt lækkandi á undanförnum árum og lækkar endurtryggingahlutfallið úr 5,4% af iðgjöldum í 5,3%.

Fjárfestingatekjur TM námu 4.061 m.kr. árið 2015 sem er 55% hækkun á milli ára og mun betri afkoma en áætluð var. Afkoma af hlutabréfaeign var mjög góð á árinu og nam rúmum helmingi af fjárfestingartekjunum. Ávöxtun eignasafns TM var með miklum ágætum eða 15,4%.

Fjármagnsgjöld hækka töluvert á milli ára en félagið gaf út víkjandi skuldabréf á árinu sem bera 5,25% verðtryggða vexti. Útgáfan er liður í að auka hagkvæmni í fjármagnsskipan félagsins og telst hún vera eiginfjárþáttur 2 (e. Tier 2) samkvæmt Solvency II reglum Evrópusambandsins. Auk víkjandi skuldabréfa greiðir félagið vexti af lánum vegna íbúða sem eru í eigu þess.

Heildargjöld félagsins námu 13.573 m.kr. árið 2015 sem er 17% hækkun frá árinu 2014. Tekjuskattur nam 340 m.kr. árið 2015 og er virkt skatthlutfall 10,7%  Hagnaður félagsins eftir skatta nam 2.827 m.kr. sem er 36% hækkun frá fyrra ári.

Efnahagur

Efnahagur TM hefur verið mjög traustur um árabil með háu eiginfjárhlutfalli. Aðlagað gjaldþol er eigið fé að frádregnum; tillögu um arðgreiðslu, óefnislegum eignum og eignarhlut minnihluta. Aðlagað gjaldþol TM nam 10.779 m.kr. í árslok 2015 en lágmarksfjárhæð aðlagaðs gjaldþols nam 2.912 m.kr. á sama tíma. Aðlagað gjaldþol var því 3,7 sinnum lágmarkið en þetta er í síðasta skipti sem gjaldþolið er sett fram með þessum hætti því á árinu 2016 tekur Solvency II gildi með nýjum gjaldþolsreglum. Samkvæmt þeim nemur gjaldþolið 12.144 m.kr. og gjaldþolskrafan 7.788 m.kr. sem gefur gjaldþolshlutfallið 1,56.

Eignir

Í efnahagsreikningi TM er fjárfestingareignum skipt í fjárfestingafasteignir, bundin innlán, útlán, verðbréf og handbært fé. Í árslok 2015 nam fjárfestingarsafn TM 26.246 m.kr. Fjárfestingarsafnið vegur 83% af heildareignum félagsins sem námu 31.720 m.kr.

Fjárfestingarfasteignir lækka um 291 m.kr. á milli ára en hluti þeirra íbúða sem eru í eigu félagsins voru seldar á árinu. Eign TM í verðbréfum hækkaði á milli ára og nam 22.000 m.kr. í árslok 2015. Handbært fé og bundin innlán námu 2.214 m.kr. í árslok 2015 sem jafngildir um 8% af fjárfestingarsafninu. Útlán félagsins lækkuðu mikið á árinu vegna uppgreiðslu á láni til Reita. Rekstrarfjármunir félagsins námu 430 m.kr. í árslok 2015. Húsnæði sem TM notar í starfsemi sinni er að mestu leyti tekið að leigu, þar með taldar höfuðstöðvar félagsins að Síðumúla 24 en leigusamningurinn er til ársins 2023. Óefnislegar eignir námu 240 m.kr. í árslok 2015 og voru annars vegar viðskiptavild að fjárhæð 100 m.kr. vegna kaupa á minnihluta í Líftryggingamiðstöðinni hf. og hins vegar eignfærður hugbúnaður. Hlutur endurtryggjenda í vátryggingarskuld er færður sem endurtryggingaeignir en þær námu 550 m.kr. í árslok 2015. Kröfur á endurtryggjendur vegna uppgerðra mála eru hins vegar færðar með viðskiptakröfum. Viðskiptakröfur námu 4.172 m.kr. í árslok 2015. Hlutfall viðskiptakrafna í árslok af iðgjöldum ársins er 31% og hækkar nokkuð á milli ára.

Eigið fé og skuldir

Í heild nam vátryggingarskuld TM 15.630 m.kr. í árslok 2015 en tjónaskuldin er nú í samræmi við matsreglur Solvency II. Skuldir vegna fjárfestingarfasteigna námu 567 m.kr. í árslok 2015 og lækkuðu þær um 34% á milli ára. Aðrar vaxtaberandi skuldir er víkjandi lán félagsins sem er rúmir 2 milljarðar kr.

Viðskiptaskuldir og aðrar skuldir lækka á milli ára en auk viðskiptaskulda er um að ræða skammtímaskuldir og áfallin gjöld, skuldir vegna endurtryggingastarfsemi og ógreiddan tekjuskatt.

Eigið fé nam 12.159 m.kr. í árslok 2015 og er eiginfjárhlutfall 38,3%.