Áhættustýring

Samhæfð áhættustýring félagsins starfar samkvæmt áhættustýringarstefnu og miðar að því að halda heildarsýn yfir alla áhættu félagsins og hvort hún sé í samræmi við áhættuvilja, fjárhagsstefnu og aðrar stefnur félagsins.

Áhættustýringarstefnan tekur meðal annars til aðferða við meðferð og mælingu einstakra áhættuþátta, útreikninga á gjaldþoli og gjaldþolskröfum, eigin áhættu- og gjaldþolsmats, þróunar líkana og skýrslugjafar um áhættu félagsins. Stefnan afmarkar einnig ábyrgð áhættustýringareiningar félagsins og aðkomu annarra sviða að áhættustýringu. Fjárfestingarstefna, endurtryggingastefna og aðrar stefnur félagsins ramma síðan inn svigrúm stjórnenda og starfsmanna til almennrar áhættutöku. Þannig er skýrt hvar ábyrgð stjórnenda og starfsmanna liggur hvað áhættutöku varðar og hvernig reka á daglega starfsemi með viðeigandi hætti.

Í áhættustýringarstefnu félagsins eru skilgreindar þær tegundir af áhættu sem mynda í sameiningu áhættusnið (e. risk profile) félagsins. Áhættan flokkast í sex yfirflokka: vátryggingaáhættu, markaðsáhættu, mótaðilaáhættu, lausafjáráhættu, rekstraráhættu og viðskiptaáhættu (Sjá lýsingu hér að neðan).


Vátryggingaráhætta
Áhætta sem fylgir vátryggingarstarfsemi og stafar af því að iðgjöld eru ákveðin fyrir fram en þjónustan (t.a.m. uppgjör bóta) veitt seinna og oft ekki að fullu þekkt í einstökum atriðum í upphafi. Vátryggingaráhætta skiptist í grunninn í tvennt: iðgjaldaáhættu og tjónaskuldaráhættu, til að aðgreina á milli tjóna í framtíðinni og orðinna tjóna. Til viðbótar kemur síðan hamfaraáhætta.

Markaðsáhætta
Markaðsáhætta er hættan á því að breytingar á markaðsverði fjármálagerninga hafi áhrif á virði fjárfestinga félagsins. Markaðsáhætta inniheldur áhættuþætti eins og vaxtaáhættu, hlutbréfaáhættu, gjaldmiðlaáhættu, fasteignaáhættu, áhættuálagsáhættu og samþjöppunaráhættu.

Mótaðilaáhætta
Mótaðilaáhætta er hættan á fjárhagslegu tapi ef viðskiptamaður eða mótaðili í fjármálagerningi getur ekki staðið við umsamdar skuldbindingar sínar og tryggingar hrökkva ekki fyrir eftirstöðvum viðkomandi kröfu. Áhættan inniheldur greiðslufallsáhættu, endurtryggingaáhættu, útlánaáhættu og aðra mótaðilaáhættu.

Lausafjáráhætta
Lausafjáráhætta er hættan á því að félagið geti ekki staðið við skuldbindingar sínar þegar þær gjaldfalla. Félagið þarf á hverjum tíma að hafa nægjanlegt laust fé til að geta mætt ófyrirséðum breytingum í fjármögnun eða breytingum á seljanleika eigna.

Rekstraráhætta
Félagið býr við áhættu vegna mismunandi þátta í rekstri þess sem geta leitt til beins eða óbeins taps. Þessir þættir varða t.d. verkefni, starfsmenn, upplýsingakerfi, ferla og stjórnmál.

Viðskiptaáhætta
Félag sem starfar á vátryggingamarkaði býr við ýmiss konar áhættu tengda ákvörðunum félagsins og stefnumótun, áætlunum, orðspori, markaðssetningu og samkeppni.

Með áhættuvilja TM er sett fram skýr stefna félagsins um fjárhagslegan styrk og áhættumörk sett fyrir þá áhættu sem félagið er tilbúið að bera fyrir eigin reikning. Þar eru ákvörðuð áhættumörk fyrir fimm þessara áhættuflokka ásamt fleiri mælingum tengdri áhættu. Í ársfjórðungslegum áhættuskýrslum fylgist stjórn félagsins með áhættutöku þess og getur brugðist við ef áhætta er komin fram úr áhættuvilja stjórnar.

Fjárhagsstefna TM skilgreinir síðan nauðsynleg gæði og magn gjaldþolsliða og inniheldur arðgreiðslu- og endurkaupastefnu félagsins og lausafjárstefnu.

Gjaldþolsstýring

Fjárhagslegur styrkur og traust eignasafn eru grunnforsendur þess að TM geti tekið við og borið áhættu viðskiptavina félagsins. Félagið vill halda nauðsynlegu eigin fé og gjaldþoli til að teljast traust og jafnframt skila eigendum sínum stöðugum og góðum arði til langs tíma. Félagið er með matseinkunnina „BBB“ frá alþjóðlega matsfyrirtækinu Standard & Poor‘s og „B++“ hjá A.M. Best.

Mikil framþróun hefur orðið í eiginfjár- og gjaldþolsstýringu með skilgreiningu áhættuvilja félagsins. Stýra þarf gjaldþoli félagsins í samræmi við þá áhættu sem rekstrinum og stefnu félagsins fylgir. Þar gegna lykilhlutverki nýjar kröfur vegna Solvency II og markmið félagsins um að halda matseinkunn í fjárfestingaflokki. Tekist hefur að ná góðum tökum á verkefninu og hefur félagið sett sér skýr markmið með vikmörkum um hve mikið gjaldþol félagið þarf.

Félagið hefur sett sér markmið um gjaldþolshlutfall upp á 1,5 með vikmörk frá 1,4 til 1,7 þar sem gjaldþolshlutfall er gjaldþol félagsins sem hlutfall af gjaldþolskröfu skv. Solvency II. Fari gjaldþolshlutfallið út fyrir þau mörk kallar það á viðbrögð stjórnar og starfsmanna.

Gjaldþolshlutfall


Gjaldþol félagsins er mjög sterkt. Félagið mun nú nær eingöngu horfa til gjaldþols og gjaldþolskrafna skv. Solvency II sem munu koma í staðinn fyrir núverandi lágmarksgjaldþol (skv. Solvency I).

Gjaldþol og gjaldþolskröfurTM hefur unnið að innleiðingu líkans sem reiknar gjaldþolskröfur skv. Solvency II. Einnig hefur félagið unnið að uppbyggingu eigin áhættumiðaðra aðferða til að sinna eigin áhættu- og gjaldþolsmati félagsins (e. ORSA). Það er mat félagsins að uppbygging líkana gefi félaginu mikla innsýn í áhættu og samspil áhættuþátta og með þeim verði hægt að stýra félaginu af aukinni festu og nákvæmni til langs tíma ásamt því að færa því samkeppnisforskot. Stjórnendur gera stefnumótandi langtímaáætlun þar sem líkönum er meðal annars beitt til að meta arðgreiðslugetu, áhættu og þá gjaldþolsþörf sem stefnunni fylgir. Áhrifaþættir áætlunarinnar á niðurstöður líkana eru til dæmis markaðsvöxtur, endurtryggingastefna, fjárfestingastefna, arðgreiðslustefna, vátryggingaskuld og verðbólga. Með líkönum getur félagið einnig beitt sviðsmyndagreiningu sem varpað getur ljósi á ýmsa þætti í starfseminni.

Fjármagnsskipan

Heildareignir TM í árslok 2015 voru 31.720 m.kr. og skuldir 19.561 m. kr en þar af er víkjandi lán upp á 2.026 m. kr. Gjaldþol í lok árs 2015 var 12.144 m.kr. og 156% af gjaldþolskröfu sem var 7.788 m.kr. samkvæmt Solvency II sem gerir félagið afar vel í stakk búið til að mæta skuldbindingum sínum.

Stjórn TM hefur sett fram skýr markmið um áhættuvilja með vikmörkum sem auðveldar stýringu á heildaráhættu félagsins og nauðsynlegu gjaldþoli. Arðgreiðslutillaga ársins 2016 byggir á þessum markmiðum og leggur stjórn TM til 1.500 m.kr. arðgreiðslu á árinu 2016. Að auki leggur stjórn til að heimiluð verði kaup á eigin bréfum sem nemur allt að 10% af útgefnum hlutum og að hámarki 1.500 m.kr. Endurkaup félagsins á næstu mánuðum stýrast fyrst og fremst af stöðu gjaldþolshlutfalls hverju sinni og þar með að miklu leyti af rekstrarafkomu næstu ársfjórðunga.

Möguleg þróun gjaldþols 2016* Hagnaður 2016 eftir skatta, skipt niður á fjórðunga miðað við sama skatthlutfall og 2015 (10,7%)

Gjaldþolskrafa

Gjaldþolskrafan í Solvency II er áhættumiðuð og reiknuð með svokölluðu staðallíkani (e. Standard formula) sem ætlað er að mæla alla helstu áhættuþætti vátryggingafélaga. Þannig skiptist staðallíkanið í sex hluta þar sem vátryggingaáhættu er skipt í þrennt:

 • Skaðatryggingaáhætta
 • Heilsutryggingaáhætta
 • Líftryggingaáhætta
 • Markaðsáhætta
 • Mótaðilaáhætta
 • Rekstraráhætta

Gjaldþolskrafan í Solvency II inniheldur þannig einnig markaðs- og mótaðilaáhættu sem segja má að hafi ekki verið innifaldar í núverandi gjaldþolskröfu. Gjaldþolskrafan í Solvency II er þess vegna töluvert hærri en gamla gjaldþolskrafan og ljóst að verið er að setja auknar gjaldþolskröfur á vátryggingafélög í Evrópu. Þessar auknu kröfur hafa komið mörgum félögum ytra illa en þökk sé mjög sterku gjaldþoli flestra íslenskra vátryggingafélaga þá mun þetta ekki hafa mikil áhrif hér á landi. Það er þá aftur á móti vísbending um að íslensku félögin hafi undanfarin ár verið mögulega með of mikið gjaldþol, a.m.k. ef marka má Solvency II.

Mælingar hjá TM á gjaldþolskröfum skv. Solvency II hafa verið í gangi síðan 2011 samfellt. Staðlaða líkanið hefur frá þeim tíma tekið ýmsum breytingum og það gerir samanburð ónákvæman.

Uppbygging gjaldþolskröfu 31.12.2015


Eins og sjá má á grafinu hér að ofan er gjaldþolskrafan byggð upp af áhættuþáttunum að frádregnum fjölþættingaráhrifum og aðlögun vegna frestaðra skatta. Fjölþættingaráhrifin koma til vegna þess að ekki er gert ráð fyrir 100% fylgni á milli allra áhættuþátta og því ekki rétt að leggja áhættuþættina beint saman. Aðlögun vegna frestaðra skatta kemur til frádráttar vegna þess að tekið er tillit til skattaafsláttar til framtíðar sem félagið fengi við mikið tap.

Allar forsendur í líkaninu miðast við eins árs 99,5% vágildi (e. Value at risk) sem þýðir að það er miðað við tapár sem ætla má að raungerist einu sinni á 200 ára fresti. Nánari útlistun þessara áhættuþátta sem byggja upp  gjaldþolskröfuna má sjá í áframhaldandi umfjöllun.

Vátryggingaáhætta

Félagið tekur að sér að bæta tiltekin tjón viðskiptavina gegn greiðslu iðgjalda. Iðgjald er greitt í upphafi þess tímabils sem vátryggingaverndin nær yfir, tjónin verða seinna og tjónsuppgjör getur síðan tekið nokkurn tíma, háð eðli tjónsins og aðstæðum. Iðgjöld og væntanlegar tjónabætur þarf að varðveita þar til kemur að greiðslu. Iðgjöldin þurfa að standa undir öllum tjónakostnaði, rekstrarkostnaði og hæfilegri álagningu að teknu tilliti til ávöxtunar á greiddum iðgjöldum og tjónakröfum. Vátryggingaáhætta er sérstök fyrir vátryggingastarfsemi og stafar af því að iðgjöld eru ákveðin fyrir fram en þjónustan veitt seinna og oft er áhættan ekki að fullu þekkt í einstökum atriðum í upphafi sem gæti haft áhrif á afkomu, efnahag og framtíðarhorfur.

Vátryggingaáhætta skiptist að grunni til í tvennt: iðgjaldaáhættu og tjónaskuldaráhættu, til að greina á milli tjóna í framtíðinni og orðinna tjóna. Síðan bætist við áhætta af hamfaratjónum sem geta verið atburðir sem ekki hafa gerst áður eða eru mjög sjaldgæfir og því ekki til í sögu hvers félags. Til að takmarka vátryggingaáhættuna þá endurtryggir félagið sig fyrir stór- og hamfaratjónum og við það lækkar vátryggingaáhætta talsvert.

Vátryggingaáhætta er reiknuð með staðlaða líkaninu og skiptist þar í þrennt; skaðatryggingar, heilsutryggingar og líftryggingar.

Skaðatryggingaáhætta


Heilsutryggingaáhætta


Líftryggingaáhætta


Markaðsáhætta

TM stendur frammi fyrir fjárhagslegri áhættu vegna eigna og skulda félagsins. Fjárfestingareignum er skipt í eignir á móti vátryggingaskuld sem inniheldur öruggari eignir líkt og ríkisskuldabréf og í eignir á móti eigin fé sem geta verið áhættusamari eignir. Markaðsáhætta er hættan á því að breytingar á markaðsverði fjármálagerninga hafi áhrif á virði fjárfestinga félagsins og þar með á afkomu, efnahag, framtíðarhorfur og virði hluta í TM. Markmið með stýringu markaðsáhættu er að takmarka áhættu við skilgreind mörk, ásamt því að hámarka ávöxtun fjárfestingasafnsins.

Markaðsáhætta skiptist í eftirfarandi undirflokka í staðallíkani Solvency II:

 • Vaxtaáhætta
 • Hlutabréfaáhætta
 • Fasteignaáhætta
 • Áhættuálagsáhætta / vikáhætta
 • Samþjöppunaráhætta
 • Gjaldmiðlaáhætta

Markaðsáhætta


Mótaðilaáhætta

Mótaðilaáhætta er hættan á fjárhagslegu tapi ef viðskiptamaður eða mótaðili í fjármálagerningi getur ekki staðið við umsamdar skuldbindingar sínar og tryggingar duga ekki fyrir eftirstöðvum viðkomandi kröfu. Þrátt fyrir að félagið leitist við að takmarka mótaðilaáhættu, aðallega með dreifingu mótaðila, er ekki hægt að tryggja að TM verði ekki fyrir tapi af greiðslufalli mótaðila sem hefði áhrif á afkomu, efnahag og framtíðarhorfur.

Í mótaðilaáhættu staðlaða líkansins er eignum skipt í tvennt. Tegund 1 sem eru bankainnistæður og mótaðilar í endurtryggingum og sú vernd sem þeir veita og tegund 2 sem eru aðallega viðskiptakröfur, iðgjaldakröfur, útlán og aðrar kröfur.

Mótaðilaáhætta


Lausafjáráhætta

Lausafjáráhætta er hættan á því að félagið geti ekki staðið við skuldbindingar sínar þegar þær gjaldfalla. Félagið þarf á hverjum tíma að hafa nægjanlegt laust fé til að geta mætt ófyrirséðum breytingum í fjármögnun eða breytingum á seljanleika eigna. Hluti fjármálagerninga félagsins eru fjárfestingar í óskráðum hlutabréfum sem ekki eru viðskipti með á skipulegum mörkuðum og almennt getur tekið tíma að selja. Því gæti félagið staðið frammi fyrir því að geta ekki innleyst fjárfestingar sínar, fyrir fjárhæð nálægt metnu gangvirði þeirra, í því skyni að mæta lausafjárþörf sinni sem gæti haft áhrif á afkomu, efnahag og framtíðarhorfur.

Til þess að takmarka þessa áhættu hefur félagið sett sér markmið um að handbært fé, ríkisskuldabréf og lausafjársjóðir sem eru tryggar og auðseljanlegar eignir nemi aldrei lægra hlutfalli en 30% af tjónaskuld. Lausafjáráhætta er ekki metin í staðlaða líkaninu.

Rekstraráhætta

Félagið býr við áhættu vegna mismunandi þátta í rekstri þess sem geta leitt til beins eða óbeins taps. Þessir þættir varða t.d. starfsmenn, upplýsingakerfi og ferla. Rekstraráhætta nær til allra rekstrareininga innan félagsins. Þrátt fyrir að TM hafi gripið til margvíslegra ráðstafana í starfsemi sinni í því skyni að draga úr rekstraráhættu er ekki hægt að útiloka að félagið geti orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna slíkra áhættuþátta sem þá hefði áhrif á afkomu, efnahag og framtíðarhorfur.

Félagið hefur um árabil verið með vottað stjórnkerfi upplýsingaöryggis skv. ISO 27001 staðlinum. Hluti af stjórnkerfinu er gerð áhættumats skv. stefnu um stýringu rekstraráhættu. Gripið er til viðeigandi ráðstafana í rekstrinum á grundvelli áhættumatsins. Einnig er fylgst með þeim atvikum sem koma upp og lagt mat á grunnorsakir og gerðar fyrirbyggjandi ráðstafanir.

Rekstraráhætta í staðlaða líkaninu er hins vegar reiknað sem hlutfall af iðgjöldum og vátryggingaskuld félagsins og því ekki hægt að segja að um nákvæm vísindi sé að ræða. (Sjá rekstraráhættu hér að ofan).

Viðskiptaáhætta

Eins og hjá öðrum félögum sem starfa á samkeppnismarkaði fylgir starfseminni ýmiss konar viðskiptaáhætta sem er að miklu leyti háð ákvörðunum og stefnumótun félagsins. Síðan fylgir starfseminni viðskiptaáhætta eins og áhættuþættir tengdir áætlunum félagsins, samkeppnis- og efnahagsumhverfi og markaðssetningu sem geta skaðað orðspor félagsins.

Á tveggja ára fresti gerir félagið stefnumótandi áætlun til 5 ára þar sem framtíðarsýn og heildarstefna félagsins er skilgreind. Meðal annars er byggt á greiningum á ytri efnahagsaðstæðum, samkeppnisumhverfi og stöðu félagsins. Stefnumótunarvinna stjórnar og stjórnenda hefur haft það að markmiði að vel sé fylgst með markaðsaðstæðum, rekstrarumhverfi og þeim tækifærum sem þar leynast. Með því að sinna þessu hlutverki af metnaði má ná auknum árangri í rekstri og takmarka þau áhrif sem stefnumótunaráhætta getur falið í sér.

Hjá félaginu er fylgst náið með öllum helstu frétta- og samskiptamiðlum á Íslandi. TM hefur í sama tilgangi sett sér reglur um samskipti við fjölmiðla. Atburðir eins og brot á lögum, rannsókn eða húsleit eftirlitsaðila eru líklegir til að hafa áhrif á ímynd fyrirtækja. TM hefur gert viðbragðsáætlanir vegna slíkra atburða til þess að lágmarka áhrif þeirra.

Viðskiptaáhætta er ekki metin í staðlaða líkaninu.

Endurtryggingar

Endurtryggingar eru mikilvægar til að verja gjaldþol TM en félagið kaupir endurtryggingar gagnvart stórtjónum og hamfaratjónum í þeim tilgangi að takmarka vátryggingaáhættu sína og jafna sveiflur í afkomu. Endurtryggingarnar gera félaginu líka kleift að taka á sig stærri einstakar vátryggingaáhættur en ella væri og sinna þannig venjulegri vátryggingaþörf langflestra íslenskra fyrirtækja. Flestir endurtryggingasamningar TM eru umframáhættusamningar (e. Excess of Loss) samningar þar sem samið er um fasta eigin áhættu í hverjum atburði. Undanfarin ár hefur tekist að koma á góðu jafnvægi milli endurtryggingakostnaðar og endurtryggingaverndar. Þannig hafa tjón sem farið hafa inn á endurtryggingasamninga ekki reynst TM íþyngjandi og ekki haft mikil eða varanleg áhrif á endurtryggingaiðgjöld félagsins.

Vátryggingaáhættur félagsins myndu mælast mun hærri í staðallíkaninu ef ekki væri fyrir endurtryggingaverndina. Þess í stað myndast mótaðilaáhætta gagnvart endurtryggjendum og því skiptir lánshæfismat þeirra frá alþjóðlegum matsfyrirtækjum nokkru máli. Eftirfarandi tafla sýnir skiptingu iðgjalda til endurtryggjenda eftir opinberu mati sem þeir hafa hlotið frá alþjóðlegum matsfyrirtækjum, en einkunnakerfið miðast við flokkun S&P, fyrir árið 2015 og áætlun um skiptingu fyrir árið 2016.

Styrkleikamat endurtryggjenda fyrir árið 2016


Undirbúningur fyrir Solvency II

TM er komið vel á veg í undirbúningi fyrir Solvency II, sem er ný evrópsk löggjöf sem boðuð hefur verið af Evrópusambandinu (ESB) með tilskipun samþykktri árið 2009. Tilskipunin er ekki enn komin til framkvæmda en verður innleidd á árinu 2016 og hefur undirbúningur innan félagsins staðið yfir í nokkur ár. Áherslur TM á næstu mánuðum verða á verkefnum tengdum stoð III og þá sérstaklega á þá opinberu skýrslu sem félaginu ber að birta um fjárhagslegan styrk félagsins.

Solvency II tilskipunin hefur hert kröfur um hvernig vátryggingafélög meðhöndla og stjórna áhættu, meðal annars  kröfur um aðkomu stjórnar að gjaldþols- og áhættustjórnun. Tilskipuninni er ætlað að áhættumiða gjaldþolsreglur, bæta almenna stjórnarhætti vátryggingafélaga og samræma löggjöf um vátryggingastarfsemi milli aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins (EES) við löggjöf um bankastarfsemi (BASEL II og III). Solvency II gjaldþolskröfur eru almennt hærri og endurspegla betur áhættu sem hvert félag ber en þær kröfur sem nú eru í gildi. Í Solvency II verður meðal annars fullt tillit tekið til markaðs- og mótaðilaáhættu sem ekki hefur verið gert í gjaldþolsreglum fram að þessu.

Eigið áhættu- og gjaldþolsmat

Einu sinni á ári, hið minnsta, framkvæmir TM svokallað Eigið áhættu- og gjaldþolsmat sem í daglegu tali er nefnt ORSA (e. Own Risk and Solvency Assessment). ORSA-matið er hliðstætt ICAAP-mati sem bankar fara í gegnum árlega. Lagt er mat á alla áhættuþætti félagsins, líka þá sem ekki eru í staðlaða líkaninu. Þá er félögum ætlað að nota sínar eigin aðferðir til að leggja mat á áhættu sem síðan er borin saman við niðurstöður staðlaðs líkans Solvency II. Þar sem forsendur líkansins byggir á evrópskum meðaltölum ber vátryggingafélögum einnig að leggja mat á hvort forsendur þess passi við raunáhættu og aðstæður viðkomandi félags.

Ekki er nóg að sýna fram á góða gjaldþolsstöðu heldur á ORSA-matið líka að innihalda framtíðaráætlun til 3–5 ára. Við gerð áætlunarinnar er horft til gjaldþols og áhættusniðs félagsins og tekið tillit til áætlaðra arðgreiðslna. Niðurstöður ORSA eiga að tryggja að yfir áætlunartímabilið sé gott jafnvægi á milli stefnu félagsins í áhættutöku og því gjaldþoli sem nauðsynlegt er til að styðja stefnuna.