Endurskoðunarnefnd

Endurskoðunarnefnd var kosin á stjórnarfundi þann 12. mars 2015 í framhaldi af aðalfundi félagsins. Nefndina skipa Andri Þór Guðmundsson, Anna Skúladóttir og Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir. 

Nefndin er skipuð á grundvelli 108. gr. laga um ársreikninga, þar sem kveðið er á um að einingar tengdar almannahagsmunum skuli hafa endurskoðunarnefnd. Jafnframt setti stjórn TM nefndinni starfsreglur. Störf nefndarinnar hafa grundvallast af þeim ramma sem lög og starfsreglur setja henni.

Nefndin fundaði sex sinnum á starfsárinu.

Helstu verkefni nefndarinnar voru:

 1. Nefndin skipti með sér verkum og var Anna Skúladóttir kosinn formaður nefndarinnar.
 2. Starfsáætlun nefndarinnar 2015/2016 samþykkt.
 3. Farið yfir samninga við ytri og innri endurskoðendur.
 4. Yfirferð á þremur milliuppgjörum ársins 2015; 31. mars, 30. júní og 30. september.
 5. Yfirferð með ytri endurskoðendum um framkvæmda- og tímaáætlun vegna endurskoðunar ársreiknings 2015.
 6. Yfirferð á ársreikningi 2015.
 7. Yfirferð á skýrslu ytri endurskoðenda.
 8. Óhæði ytri endurskoðenda staðfest.
 9. Yfirferð án stjórnenda með ytri endurskoðendum um mat þeirra á samstarfi og gæðum vinnu stjórnenda við gerð ársreiknings og árshlutauppgjöra.
 10. Samþykkt áætlun innri endurskoðenda fyrir árið 2015 ásamt þriggja ára áætlun.
 11. Yfirferð á skýrslum innri endurskoðenda.
 12. Eftirfylgni með viðbrögðum stjórnenda við athugasemdum innri endurskoðenda.
 13. Yfirferð á ársfjórðungslegum áhættuskýrslum.
 14. Farið yfir ORSA-skýrslu.

Starfsárið var fyrsta starfsár bæði ytri og innri endurskoðenda en samið var við PWC um ytri endurskoðun og KPMG um innri endurskoðun til næstu fimm ára að undangengnu útboði um þjónustuna. Áhersla var lögð á að vinna innri endurskoðenda nýttist ytri endurskoðendum í vinnu þeirra eftir því sem mögulegt var. 

Nefndin samþykkti fyrir sitt leyti viðauka sem gerður var við samning ytri endurskoðenda sem fól í sér m.a. bein samskipti ytri endurskoðenda við FME í samræmi við leiðbeinandi tilmæli FME þar um.

Í samræmi við starfsáætlun nefndarinnar fyrir tímabilið var farið ítarlega yfir tíma- og framkvæmdaáætlun ytri endurskoðenda um framkvæmd endurskoðunar ársreiknings. Jafnframt var farið ítarlega yfir ársreikning og árshlutauppgjör með stjórnendum og ytri endurskoðendum. Sérstaklega var horft til matsliða og áhættuþátta sem áhrif kunna að hafa á niðurstöðu reikningsskilanna. 

Farið var ítarlega yfir niðurstöður innri endurskoðenda en þeir lögðu fram tvær áfangaskýrslur á tímabilinu:

 • Innri endurskoðun, ágúst 2015
 • Innri endurskoðun, febrúar 2016.

Í ágústskýrslunni er fjallað um mannauðsmál, umboð og útibú og markaðs- og kynningarmál ásamt eftirfylgni athugasemda frá fyrri árum. Brugðist hefur verið við öllum athugasemdum frá fyrri árum með viðunandi hætti.

Í febrúarskýrslunni er fjallað um söluferil/nýsölu, sölu og umboðslaun, endurnýjun samninga og sölu hjá Líftryggingamiðstöðinni.