Samfélagsábyrgð

Stefna TM um samfélagsábyrgð var mótuð 2014 og innleidd 2015. Hún felur í sér þrjár meginstoðir: Forvarnir, persónuvernd og upplýsingaöryggi og stuðning við vaxtarbrodda samfélagsins. Unnið var að fjölbreyttum verkefnum í samræmi við stefnuna á árinu. 

Hlutverk TM er að þjóna einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum með aðstoð við að vera rétt tryggð og koma lífi þeirra og starfsemi fljótt á réttan kjöl eftir áföll. Starfsemi tryggingafélags felur í sér sameiginlega ábyrgð á lífi, heilsu og hagsmunum fólks og því ber TM mikla ábyrgð.

Það er markmið TM að draga úr skaðlegum áhrifum af starfsemi sinni og hafa jákvæð áhrif á þróun samfélagsins með því að nýta sérþekkingu sína í þágu þess. Það er trú okkar að með því að vinna að því að halda góðu jafnvægi milli efnahagslegra og samfélagslegra þátta og umhverfisins leggjum við okkar af mörkum til þess að auka sjálfbærni í íslensku samfélagi.

Starfsmenn TM og stjórn félagsins telja að með því að hafa samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi í störfum sínum minnki þeir verulega líkur á því að félagið verði fyrir áföllum sem hafi skaðlega áhrif á ímynd þess og orðspor. Samfélagsleg ábyrgð er leiðarljós í daglegri ákvarðanatöku og þannig má hafa jákvæð áhrif á samfélagið, bæta nýtingu auðlinda, auka þekkingu og lækka kostnað. Skýrt leiðarljós um samfélagsábyrgð styður jafnframt við gildi félagsins um heiðarleika og sanngirni.

Stoðir samfélagsábyrgðar TM

TM hefur skilgreint þrjá málefnaflokka sem starfsmenn félagsins búa yfir sérþekkingu á og félagið telur að nýta megi þá þekkingu til góðs fyrir samfélagið.


1. Forvarnir

Starfsmenn TM hafa mikla þekkingu á því sem getur hent fólk, fyrirtæki og stofnanir og hafa í gegnum tíðina veitt framúrskarandi þjónustu í því að aðstoða viðskiptavini félagsins við að bregðast við áföllum. Við heitum því að vinna markvisst að því að minnka líkur á tjónum, hvort sem um er að ræða tjón á heilsu eða öðrum hagsmunum einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. TM sinnir forvörnum á ýmsum sviðum og styrkir forvarnarstarf annarra. Sá þáttur verður efldur enn frekar enda ætlun TM að marka sér stöðu sem það tryggingafélag sem þekkt er fyrir að hafa með starfsemi sinni jákvæð áhrif á öryggi, heilsu og vellíðan fólks.


2. Persónu­vernd og upplýsinga­öryggi

TM hefur verið með vottað stjórnkerfi upplýsingaöryggis frá árinu 2006 og hefur unnið markvisst að því að tryggja öryggi upplýsinga og efla öryggisvitund starfsmanna, þjónustuaðila og viðskiptavina TM. Við leggjum sérstaka áherslu á að tryggja öryggi persónuupplýsinga sem okkur er treyst fyrir vegna starfa okkar.


3. Stuðningur við vaxtarbrodda samfélagsins

TM fjárfestir í völdum fyrirtækjum sem teljast til vaxtarbrodda samfélagsins. Með þessu stuðlum við að nýsköpun og fjárfestingu í greinum sem eru að byggja upp sérþekkingu á sínu sviði. Við leitum leiða til þess að koma tímanlega með lausnir fyrir aðila sem eru að hefja nýja starfsemi eða þróa starfsemi sína þannig að hún kallar á nýjar lausnir í vátryggingum. Með því að tryggja vátryggingarlega hagsmuni þeirra snemma í þeirra lífshlaupi má auka líkur á að rekstur þeirra blómstri til lengri tíma litið, samfélaginu til hagsbóta. 

Helstu samfélagsverkefni TM 2015

Í samræmi við stefnu félagsins tók TM þátt í fjölmörgum samfélagsverkefnum á árinu. Flest voru eigin verkefni TM en nokkur voru unnin í samvinnu við aðra eða þátttaka í verkefnum annarra.

TM sinnti áfram öflugu forvarnarstarfi á árinu, viðskiptavinum til heilla. Um árabil hefur félagið lagt sitt af mörkum til að bæta heilsu sjómanna. Sjónum hefur verið beint að starfsumhverfi sjómanna, mataræði og hreyfingu. Það hefur margsýnt sig að með öflugum forvörnum minnka líkur á veikindum og slysum til sjós.

Félagið efndi til fjölmargra námskeiða fyrir einstaklinga, einkum yngra fólk. Námskeið fyrir verðandi ökumenn og foreldra/forráðamenn þeirra hafa fest sig í sessi enda mikilvægt að búa nýliða sem best undir umferðina. Tjón eru tíð á fyrstu tveimur árum fólks með ökuréttindi og mikilvægt að reyna að draga úr þeim með öllum tiltækum ráðum.

TM vill líka veita ungum barnafjölskyldum ráð svo sem kostur er og hefur í því skyni staðið fyrir námskeiðum um brjóstagjöf, og svefn og næringu ungbarna á fyrsta ári. Það er skoðun okkar að með slíku starfi getum við stutt við bakið á fólki sem er að hefja lífsgönguna fyrir alvöru og myndað við það góð tengsl til framtíðar.

Meðal samstarfsverkefna á sviði forvarna má nefna sjónvarpsþættina Biggest Loser – Ísland á Skjá einum sem TM hefur kostað að hluta. Ofþyngd er útbreitt heilsufarslegt vandamál og það er TM í hag að spornað verði við því með öllum tiltækum ráðum. Þættirnir hafa notið mikilla vinsælda og án efa vakið fólk til vitundar.

Við þetta má svo bæta að félagið leggur ríka áherslu á forvarnir og heilsuvernd meðal starfsmanna. Efnt hefur verið til námskeiða og heilsufarsmælinga til að stuðla bættum lífsgæðum TM-fólks og það hvatt til hollra og heilsusamlegra hátta með ýmsu móti.

Auk ofangreinds hélt TM áfram stuðningi við margvísleg góð málefni og fór að vanda einna mest fyrir TM-mótunum í knattspyrnu kvenna en félagið hefur um árabil stutt myndarlega við bakið á kvennaboltanum.

Vaxtarbroddar

Það er TM í hag að atvinnulífið í landinu sé öflugt og fjölbreytt. Félagið var stofnað til að þjónusta fyrirtæki í sjávarútvegi og hefur á síðustu árum nýtt reynslu sína og þekkingu til að styðja við bakið á vaxtarbroddum samfélagsins. Sá stuðningur er tvíþættur. Nýsköpunarfyrirtæki eru viðkvæm fyrir áföllum og því mikilvægt að þau hugi vel að tryggingum. TM býður sprotum upp á sérsniðnar lausnir í vátryggingavernd sem veitir þeim mikilvægt öryggi á fyrstu starfsárunum. Hins vegar fjárfestir TM í ungum fyrirtækjum sem eru líkleg til að vaxa og dafna. Meðal slíkra fjárfestinga á árinu má nefna Lauf Forks sem hannar, framleiðir og selur léttasta reiðhjólademparagaffal í heimi! Af öðrum toga eru hlutafjárkaup í Arnarlaxi í Arnarfirði en mikil gróska er í laxeldi og vonir standa til að greinin eigi eftir að eflast mjög á komandi árum. Sú fjárfesting TM er öðrum þræði hugsuð til að auka þekkingu félagsins á fiskeldi svo það geti betur veitt fyrirtækjum í þeim geira víðtæka tryggingavernd.

Þá var TM einn bakhjarla Toppstöðvarinnar, sjónvarpsþáttar þar sem fylgst var með hópum frumkvöðla þróa verkefni sín frá hugmynd að fullbúinni vöru eða þjónustu. Með því tengdi TM sig með áberandi hætti við nýsköpun, vöxt og framsækni og gaf þannig skýrt til kynna að félagið tekur frumkvöðlum opnum örmum hvort heldur er til samstarfs á sviði vátrygginga eða fjárfestinga.