Samsett hlutfall

Aðalmælikvarði á afkomu vátryggingarekstrar er samsett hlutfall. Í sögulegu og alþjóðlegu samhengi hefur samsett hlutfall á íslenskum vátryggingamarkaði verið yfir 100% ef frá eru talin allra síðustu ár. Markmið TM er að samsett hlutfall sé til lengri tíma litið undir 95%.

Með samsettu hlutfalli  er yfirleitt átt við nettóhlutfallið eftir að tekið hefur verið tillit til endurtrygginga. Lagt er saman eigið tjónshlutfall og kostnaðarhlutfall. Eigið tjónshlutfall er eigin tjón deilt með eigin iðgjöldum, en þá er bæði búið að draga frá tjónum þann tjónakostnað sem fellur á endurtryggjendur og kostnað vegna endurtrygginga frá iðgjöldum. Kostnaðarhlutfall er kostnaður sem fellur á vátryggingarstarfsemina deilt með eigin iðgjöldum. 

Í sögulegu og alþjóðlegu samhengi hefur samsett hlutfall verið hátt á Íslandi. Undantekning frá því eru undanfarin ár þar sem hlutfallið hefur verið undir 100% en það hækkaði aftur á síðasta ári. Á Norðurlöndunum hefur samsetta hlutfallið sl. 20 ár verið um eða undir 90% en sú þróun hófst í kjölfar fjármálakreppunnar í upphafi tíunda áratugarins. Segja má að þá hafi myndast samhljómur um að vátryggingarstarfsemin ætti að standa undir rekstri tryggingafélaganna þannig að þau þyrftu síður að reiða sig á afkomu fjárfestinga til að skila eðlilegri arðsemi.

Samsett hlutfall hækkar gjarnan á tímum verðbólgu þar sem verðlag hækkar frá því að iðgjöld eru greidd þar til bæta þarf tjón. Til að bregðast við þessu fjárfesta vátryggingafélög gjarnan í verðtryggðum verðbréfum sem skila hærri fjárfestingartekjum þegar verðbólga eykst. Það helst því oft í hendur að þegar afkoma af vátryggingum er slök fæst góð afkoma af fjárfestingum. Það sama á við þegar mikill hagvöxtur er í þjóðfélaginu líkt og um þessar mundir en þá eykst tjónatíðnin, t.d. vegna meiri umferðarþunga, og samsetta hlutfallið hækkar. Í örum hagvexti eykst virði hlutabréfa og þar með afkoma fjárfestinga vátryggingafélaganna.

Marmið TM er að samsetta hlutfallið sé til lengri tíma undir 95% en lögð hefur verið áhersla á að bæta aðferðir í verðlagningu, áhættumati, endurtryggingum og almennum rekstri. TM hefur síðustu ár lagt mikla áherslu á að nýta nýjar tölfræðilegar aðferðir sem m.a. fela í sér greiningu á þekktum áhættuþáttum eins og aldri, fjölskyldusamsetningu og búsetu vátryggingartaka, til að bæta áhættutöku og verðlagningu. Þannig hefur félagið náð að bæta verulega samsett hlutfall sitt án þess að tapa markaðshlutdeild.

Samsett hlutfall


Kostnaðarhlutfall

Kostnaðarhlutfall er sá hluti rekstrarkostnaðar sem tilheyrir vátryggingarekstri, sem hlutfall af eigin iðgjöldum. Hjá TM er þessi kostnaður um 88% af heildarkostnaði félagsins en 12% kostnaðarins fellur til vegna fjárfestingarstarfsemi. Markmið félagsins er að kostnaðarhlutfall verði undir 20% en gjarnan er þetta hlutfall um 14–15% á hinum Norðurlöndunum. Er þar raunar miðað við brúttó hlutfall sem gefur lægri niðurstöðu. Hér ræður, eins og svo oft, óhagkvæmni vegna smæðar íslenska markaðarins auk þess sem opinberar álögur eru hér hærri en annars staðar, m.a. í formi fjársýsluskatts á laun. Langstærsti kostnaðarliður félagsins er laun og launatengd gjöld en sá liður vegur um 50% af heildarkostnaði. Vaxandi þáttur í rekstri TM er umboðslaunakostnaður vegna aukinnar sóknar á erlenda markaði og aukinnar sölu í gegnum ytri söluaðila.

Markmið TM er að ná kostnaðarhlutfallinu undir 20% en félagið telur sig geta aukið iðgjöld án þess að hækka rekstrarkostnað í sama mæli. Kostnaðarhlutfall TM er með því lægsta sem þekkist hjá vátryggingafélögum hér á landi en stærri hluti iðgjalda TM er frá fyrirtækjum en hinna félaganna. 

Eigið kostnaðarhlutfall