Helgun starfsfólks

Við mótun stefnu TM fyrir tímabilið 2014–2018 var helgun (e. engagement) samkvæmt svörun starfsfólks á kjarnaspurningum Gallup skilgreind sem einn af fimm lykilmælikvörðum félagsins. 

Gallup í Bandaríkjunum hefur þróað kjarnaspurningarnar. Um er að ræða þrettán spurningar sem lúta að grunnþörfum starfsmanns, starfsmanninum sem einstaklingi, starfsmannahópnum og starfsþróun, auk þess sem spurt er um almenna starfsánægju. Meðaleinkunn á kjarnaspurningum er talin segja til um helgun starfsfólks innan fyrirtækis.  

Rannsóknir Gallup hafa leitt í ljós að þeir starfsmenn sem gefa kjarnaspurningunum einkunnina 5 á kvarðanum 1–5 eru almennt ánægðari, tryggari, veita betri þjónustu og eru afkastameiri en þeir starfsmenn sem gefa spurningunum lægri einkunn (t.d. 4 eða 3). Þetta er grunnurinn að góðum rekstri og því mikilvægt að fylgjast með helgun og reyna að efla þá þætti sem búa að baki mælingum á henni. 

TM hefur frá árinu 2006 mælt helgun starfsfólk í vinnustaðargreiningum. Vinnustaðargreiningarnar voru lagðar fyrir á tveggja ára fresti árin 2006–2012 en þá liðu þrjú ár þar til vinnustaðargreining var næst framkvæmd, á árinu 2015.

Þróun helgunar hjá TM 2006–2015*


*skv. vinnustaðargreiningum Gallup á Íslandi (áður Capacent).

Til að helgun geti talist styrkleiki þarf hún að mælast 4,2 eða hærri og setti TM sér það markmið að ná þeirri einkunn á árunum 2014–2018. Helgun starfsfólks TM fór vaxandi frá 2006 til 2012 og mældist á styrkleikabili í vinnustaðargreiningum 2010 og 2012. Í vinnustaðargreiningu 2015 mældist helgunin 4,03 sem er nokkur lækkun frá 2012 og undir markmiði félagsins.

Vinnustaðargreining er úrbótatæki sem notað er til að greina hvað er vel gert og hvað má bæta. Þegar niðurstöður vinnustaðargreininga hjá TM liggja fyrir eru þær kynntar starfsfólki og stjórnendum og svo rýndar í minni hópum. Skoðað er hvar úrbóta er þörf og unnið markvisst að því að bæta þætti sem teljast mikilvægir auk þess sem hugað er að því að viðhalda styrkleikum.

Niðurstöður vinnustaðargreiningar 2015 voru kynntar fyrir starfsfólki á starfsmannafundum í maí 2015. Ætlunin var að vinna frekar úr niðurstöðum haustið 2015 og þá á vinnustofum með hverju sviði fyrir sig, með það að markmiði að setja af stað úrbótaverkefni innan sviða og deilda. Úr því varð ekki þar sem skipurit félagsins tók talsverðum breytingum 1. september 2015. Með breytingunum færðist starfsemi og starfsfólk milli sviða og starfsmannahópar sviða því ekki þeir sömu og voru þegar vinnustaðargreiningin var lögð fyrir.

Niðurstöður greiningarinnar gefa þó engu að síður vísbendingar um stöðu mála eins og hún var þegar vinnustaðargreiningin var framkvæmd. Þegar einkunnir TM á kjarnaspurningum í vinnustaðargreiningunni 2015 eru skoðaðar mælist starfsánægja starfsfólks TM sem styrkleiki (4,2 eða hærra). Væntingar til starfsfólks eru skýrar og starfsfólk telur sig hafa þau tæki og gögn sem það þarf til að sinna starfi sínu. Umhyggja, vinátta og samstarf mælast yfir 4,2. Mikilvægir þættir sem huga þarf að eru hrós og endurgjöf, hvatning og tækifæri til starfsþróunar.

Þó svo ekki hafi orðið af fyrirhuguðum vinnustofum sl. haust hefur ýmislegt verið gert hjá TM sem er til þess fallið að bæta þá þætti sem þörf var á, skv. niðurstöðum vinnustaðargreiningarinnar.

Frammistöðusamtöl 2015 fóru af stað í mars og höfðu þá verið í undirbúningi í nokkurn tíma. Skilgreindir voru hæfniþættir fyrir öll störf innan félagsins og markmið innan deilda. Haldnar voru undirbúningsvinnustofur fyrir starfsfólk sem gögnuðust vel í samtölunum sjálfum. Í samtölunum var lögð áhersla á að starfsfólk fengi skýra endurgjöf á störf sín; hvað þyrfti að bæta og hvaða þættir teldust til styrkleika, auk þess sem möguleikar til starfsþróunar voru ræddir. Eftirfylgnisamtöl vegna frammistöðusamtala 2015 fóru af stað síðastliðið haust og er að ljúka núna.

Við skipulagsbreytingar voru mannauðsmál færð undir skrifstofu forstjóra og verkefnum mannauðsstjóra fækkað svo mikilvægir þættir eins og innra fræðslustarf og starfsþróun fái aftur meiri athygli auk þess sem betra tóm gefst til að fylgja mannauðsverkefnum eftir.

Í ljósi skipulagsbreytinga og niðurstaðna vinnustaðargreiningar 2015 var ákveðið að leggja vinnustaðargreiningu fyrir starfsfólk TM í apríl 2016. Það verður áhugavert að fá niðurstöður þeirrar greiningar, en úrvinnsla og aðgerðir í kjölfar greiningarinnar munu ráðast af niðurstöðum hennar.